5 góð ráð fyrir heimaveisluna

1 Notastu við hlaðborð 

Hlaðborð er mjög þægilegt fyrir veislur þar sem eru 15 manns eða fleiri.

Hægt er að nýta önnur húsgögn undir veitingar.

Til dæmis hliðarborð, sjónvarsskenki, gluggakistur, kommóður eða jafnvel náttborð. 

Ef raðað er veitingum á borðið sem setið er við þarf fólk að teygja sig í aðra rétti á borðinu eða ef til vill biðja aðra sem það ef til vill þekkir ekki um að rétta sér og sumum finnst það óþægilegt

Hlaðborð auðveldar allra aðgengi að öllum veitingum.

 

2 Ekki hafa veitingar of flóknar

Það verða alltaf tegundir á hlaðborði sem eru minna vinsælar en aðrar. Ef þú ert með mikið úrval af veitingum er líklegra að það verði nokkrir réttir sem klárist snemma.

Ef þú ert með færri tegundir er mikið auðveldara að fylla á hlaðborðið.

Ef veislan er mjög stór er sniðugt að hafa hluta af veitingunum þess eðlis að auðvelt sé að setja þær í frysti eftir veisluna og eiga til góða með kaffinu síðar.

3. Gerðu ráð fyrir börnum

 

Ef að þú gerir ráð fyrir börnum skaltu hugsa um veitingar sem henta vel fyrir börn og auðvelt er fyrir þau að bjarga sér sjálf.

Sniðugt er að hafa skál með skornum ávöxtum eða brauðmeti nálægt afþeyjingunni fyrir börnin hvort sem það er barnaherbergi eða horn með litum og leikföngum.

 

4. Hafðu mat og drykki aðskilin.

Þetta er mjög sniðugt fyrir stærri veislur.

Hafðu drykki ekki á sama hlaðborði og maturinn.Með því ertu að dreifa álaginu á hlaðborðið og þeir sem ætla til dæmis bara að ná sér í kaffi og þeir sem ætla að fá sér kökusneið geta gengið greitt hvor að sínu hlaðborði.

 

Hugsaðu fyrir því þegar þú setur upp hlaðborð að hafa gott aðgengi fyrir þig að fylla á veitingarnar.

 

5. Dreifðu veitingunum um rýmið

 

Ef þú ert með veislu sem teygjir sig út á pall eða útisvæði skalltu setja veitingar þangað til að laða fólk út - sérstaklega ef plássið er minna inni og þú verður að nýta pall. Hægt er að setja kaffikönnu á útiborðið, ávexti eða eina tegund af hlaðborðinu sem þolir hitastigið.

Fyrir stærri heimaveislur gætir þú sett einnig kaffi á borðin sem setið er við ef þú átt nóg af kaffikönnum. Þá þarf fólk ekki að standa upp til að ná sér í ábót.